Velkomin á debian-user-icelandic
Velkomin á debian-user-icelandic!
Hugmyndin um að fá þennann lista stofnaðan kviknaði í samræðum
mínum og Þorvaldar Arnars Þorvaldssonar, félaga míns og
trúbróður í Debian söfnuðinum ;-)
Við höfum, eins og flestir Debian-grúskarar, oft fengið spurningar
frá vinum og kunningjum í sambandi við Debian og oftar en ekki
verið að svara sömu spurningunum aftur og aftur. Þótti okkur
því tilvalið að reyna að koma þessum upplýsingum á form sem
fleiri geta nálgast og hægt er að fletta upp í eftir þörfum.
Tölvupóstlistar þjóna þessum tilgangi vel, auk þess sem fleiri
geta þá gefið álit sitt á málinu og kringum listana getur skapast
skemmtilegt samfélag ef vel tekst til.
Málefni sem okkur fannst augljóst að ræða á listanum eru í
fyrsta lagi almennar spurningar um notkun Debian. Auðvitað
hefur listinn debian-user þennan sama tilgang en mörgum
finnst það stórt skref að senda póst á svo virðulegan lista, með
þúsundum áskrifenda, auk þess sem fólk á misauðvelt með að lýsa
vandamáli sínu á ensku.
Annað málefni, sem við teljum mjög heppilegt að ræða á
listanum, eru vandamál og lausnir við að nota Debian á
Íslandi og á íslensku. Slíkar upplýsingar er á þessari stundu
ekki hægt að nálgast á einum stað (að mér vitandi).
Annars mun umræðan auðvitað mótast af þeim sem nota
listann en ég vil biðja ykkur um að fylgja þeim viðmiðunarreglum
sem settar hafa verið um notkun á póstlistum Debian-verkefnisins
(sjá: http://www.debian.org/MailingLists/)
Með von um líflegar umræður,
Kristinn B. Gylfason
Reply to: